Bláþræðir -dagbók vændiskonu

Þessi bók er tileinkuð Nínu. Þrátt fyrir prýðilega umsögn lesara bókaforlagsins Eddu var útgáfu hafnað á þeirri forsendu að yrkisefnið væri "ekki ljóðrænt".

Saturday, October 09, 2004

Efnisyfirlit

-

Inn fyrir leiktjöldin

Landkynning
Á vinnustofu listamanns
Pósa
Dorg
Eftir lokun
Bergmál úr helli ísdrottningar
Höll meistarans
Þrællinn
Kastali Drottningarinnar
Ljóð handa útgerðarmanni


Bláþræðir fávísinnar

Bakþankar
Línur
Sjálfsköðun
Ljóð handa bjargvætti
Í býtið
Frétt
Engan bilbug


Veruleikinn stendur á tröppunum

Við lúguna
Ljóð handa skúringarkonum
Frídagur
Fall
Val
Listamenn loka ekki augunum


Hugarró

Vænting
Vetur
Vökuvísa
Hlutskipti
Hugarró
Ljóð handa konum á uppleið
Ævintýr hins ósagða

Thursday, October 07, 2004

Landkynning

-

Utan við kaffi Austurstræti
svipta vorvindar hraðir
skjóllitlum flíkum
ljóshærðar stúlku
sem brosir til ferðamanna,
berrössuð
eins og hálendið sjálft
og krefst ekki greiðslu.

Önnur smávaxin, dökk
við dyrnar,
leiðir drukkinn landa
út í nepjuna,
nemur staðar við hraðbankann
með skáeygu brosi.
Á Íslandi gerast allir hlutir hratt.

Á vinnustofu listamanns

-

Horfi á blýantinn gæla við hálslínu
strjúka mýkt yfir kviðinn

viðarkolum hefur þú leikið nekt mína
laðað úr hörundi mínu
liti sem ekki er þó ætlað að lenda á striga.

Og ég sem vildi vera þér Mona Lisa,
þarna sit ég pappírnum,
sposklaus með öllu.

Svarthvít niðurstaða
af litfrjóum leik.

Pósa

-

Fangaðu sál mína,
klámfengna blygðun,
eitt stafrænt augnablik.

Fíkjublaði skreyti ég nekt mína
Brosi til linsunnar,
bak við hárið
veðböndum prýtt.

Dorg

-

Í innflutningsdeildinni
liggja dorggjörn tækifæri á glámbekk.
Gríp þau í gæsavís
og renni út

gullfiska húkkar gæsin mín
á augnkrók.

Eftir lokun

-

Herbergi starfsfólksins verst.
Þefur af kampavínsælu,
svitastokknu næloni
og reykmettuðu sæði.

Borðtusku rennt
framhjá notuðum fimmþúsundkalli
sem gleymdist á borðinu,
hvítt duft loðir við gulan hor á upprúlluðum endanum.

Moppunni rennt
framhjá notuðu nærbuxnainnleggi
sem gleymdist á gólfinu,
hvítt yfirlag, atað gulum vessum.

Að lokum er tuskan undin
og vagninum rennt
framhjá haug af hvítum eldhússpappír,
klístruðum gulum blettum.

Hendur þvegnar og
augunum rennt
framhjá notaðri dansmey
gulri
sem að líkindum hefur gleymst
á hvítum sófanum.

Bergmál úr helli Ísdrottningar

-

Úr staðleysu
hafa nöfn okkar kallast á,
bergmálað í draumum
sem báru hold mitt
til dyflissu þinnar

dyflissu þína
til veruleika míns.

Geislum hefur undarleikinn fléttað íshelli þinn
og varpað ljósi á óþekkt göng að óþekktum kjarna.

Staðleysa mín, svipa þín
en svipur minn
í nafni þínu.

Höll Meistarans

-

Vorverkin hafin.
Einhver hefur klippt runnana í dag.

Geng hrörlegan stigann,
snerti varlega hriktandi handriðið.
Les tákn úr sprungum í veggnum
og gatslitnum gólfdúknum.

Hér, bak við spónlagða hurð sem ískrar á hjörunum,
er Mark Antony til húsa.

Banka varlega,
hrollur við hnakkann;
“mér var sagt að mæta til viðtals herra”.

Hér, í satinklæddri dyngju sinni
skreyttri kertaljósum og gullofnum púðum,
ólar hann ódælar stúlkur niður á flengibekk,
á meðan konan á neðri hæðinni
hirðir afklippta birkisprota úr garðinum.

Þrællinn

-

Þrælslund í augum
en fró í hjarta.
Þvær gólfið í dyngju Gyðjunnar
á hnjánum með stífaða svuntu.
Fær kannski að lakka neglur hennar að launum
eða smeygja háhæla skóm á fíngerða fætur.

Kveður auðmjúklega
með kossi á hönd Gyðjunnar.
Snýr aftur til embættis síns
íklæddur magabelti og netsokkum
undir jakkafötunum.
Reiðubúinn að takast á
við þrældóm hvunndagsins.

Kastali Drottningarinnar

-

Kastali minn stendur á hæðinni.
Ljós í efsta turnglugga
og úlfar varna óboðnum inngöngu.
Gerði þyrnirósa umkringir.
Flýgur hrafn yfir.

Silkiklædd tek ég á móti þér
með veldissprotann reiddan til höggs,
dyngja mín tjölduð flauelsdúk
er þú krýpur mér að fótum.

Meðan þú dvelur hlekkjaður í turni mínum
og hlustar á hringlið í keðjunum
grunar þig síst
að bak við virkisvegginn
blakti veruleikinn
strengdur yfir snúru í formi Hagkaupsbols.


Ljóð handa útgerðarmanni

-

Samstarf, segirðu;
LOL!
Ég þekki kóna
af þínu tagi,
dóna
sem ekkert kunna og vilja nema nota,
pota,
ota sínum tota.

Sé þær gægjast upp úr vösum þínum,
fávísar, fátækar, háðar
en þarf ekki að spyrja.

Þú ert illa skeindur góði minn
því ber vitni
nærbrók þín, á gólfinu.

Tuesday, September 07, 2004

Bakþankar

-

Bláþráðum sleginn
er örlagavefur minn
þessi árin.

Skarpir hafa skorið
fingur nornanna
þræðirnir þeir.

Línur

-

Var það lífsins lind
sem spratt fram undir vísifingri þínum,
kvíslaðist við uppsprettuna,
greindist í ám og lækjum um lófa þinn allan
og vætti hörund mitt?

Eða var það tákn guðdómsins
þegar þú bentir á mig,

netið
sem þú reyrðir að hálsi mér?

Sjálfsköðun

-

Hver velur slíkt hlutskipti?

Setja sig í lífshættu
til að handleika blóðkaldar hræætur.
Koma heim með slímkennda ólykt
loðandi við húð þína og fatnað
svo börn þín hrökklast frá.

Selja öðrum afnot af skrokk sínum
og eftirláta hluta ágóðans
í skiptum fyrir aðstöðu og vernd,
og fylliríið í kringum þetta, Drottinn minn dýri.

Hver myndi velja sér slíkt hlutskipti?
Var það fjárhagsleg neyð sem rak þig
eða sýður þér í æðum sjómannsblóð?

Ljóð handa bjargvætti

-

Bjargaðu mér!
Bjargaðu mér frá dráttarvöxtum.
Frá samveru við fjölskylduna.
Frá því að heyra ekki framar “heimild synjað”
við afgreiðsluborðið í Bónus.

Bjargaðu einnig súlustúlkunni
(sem áður vann 7 tíma á dag á spænsku hóruhúsi)
frá því að eygja von um svepplaust líf
með því að bera sig fyrir manninn þinn
bak við tjöldin.

Bjargaðu frá geðillskukasti
öllum háskólagengnu konunum
sem sjá eftir tekjum maka sínna
í vasa ómenntaðs útlendings.

Í bítið

-

Þú fléttaðir hár mitt
myndböndum,
smaugst fimlega
úr olíubornum greipum mínum

en áður en lýkur
svipti ég sparlökum frá rekkju þinni
og breiði þau á bekkinn.

Frétt

-

Á litþrungnum blámorgni
blómstra kyrraðarrunnar í Norðurmýrinni
og einsemdin röltir í skjóli þeirra
á fund lausakonu sem vakir enn
með huggun í höndum.

“Velkomin”, segir hún
og brosið nær fram í fingurgóma.
“Nú hætti ég bráðum í bransanum.
Þeir sýndu dömunni stjörnur í gær.”

Engan bilbug

-

Í þessum geira
dregur umfjöllun úr eftirspurn
í bili.

Bugast ekki af bilinu því
þótt flestir séu draumar mínir
fallnir í gjalddaga.

Kasta út interneti og símalínu
og dreg;
þeir fiska sem róa.

Veit sem er
að með tímanum mun umtalið
miðla árangri,
fjöl til að fljóta á,
varpa ljósi á augu hinna umræddu
sem enginn hefur ennþá spurt álits.

Við lúguna

-

Troddu hausnum í þar til gert gat,
helst það þrengsta sem þú finnur
dragðu andann djúpt
og syngdu svo
um allt sem brennur þér í iðrum
og vittu til
að lokum mun rödd þín hljóma.

Há og hvell
mun hún
hljóma.
Kasta hjarta þínu
veggja á milli
í iðrum
ruslageyslunnar.

Ljóð handa skúringakonum

-

Heit var ég
og freyðandi
en hjaðnaði
þegar hann sökk
í ilmmjúkan kúfinn
og drakk í sig eðli mitt.

Eftir á köld.
Flöt.
Gólfið hreint
en sjálf er ég daungrátt skólp
og klúturinn undinn.

Saturday, August 07, 2004

Frídagur

-

Hringhentu á lofti
hjarta mitt.

Bittu í hár mitt
sléttubönd.

Strjúktu hrygglínu
stuðlum.

Því hvað er ævintýr án klifunar
frelsi án fjöturs?

Fall

-

Kannski hörpustrengjabrúða
eða upptrekkt spiladós;
ballerína sem endalaust snýst í hringi
um sama stef.

Þú boraðir göt á rifbein
og rótfylltir hjarta mitt.
Sjúgðu mitt brjóst, minn kæri
á fíflamjólk fæði ég þig.

Friday, August 06, 2004

Val

-

Stolt mitt
bryddað sæði bræðra þinna

og ég hekla í blúnduna;
eina nótt enn án þín,
eina eilífð án þín.

Vandað handbragð, vel pressað,
yfirlýsing;
“ég valdi það sjálf”.

Þó glittir í blámann
gegnum milliverk hreinna rúmfata.

Listamenn loka ekki augunum

1

Ilmur framandi jurta
af hörundi þeirra.
Safinn sprettur fram undan fingurgómum.
Vildi sökkva tönnunum
í freskjumjúkt holdið og sjúga.
En auðvitað snerti ég aðeins yfirborðið
því listamenn loka ekki augunum.

Þó gerist það stöku sinnum
að eftir á finn ég húðfrumur
undir nöglunum.


2

Stundum sveittir búkar,
holdið skvapkennt,
rassalykt.

Sál mín varin, geymd,
sefur rótt í efstu kommóðuskúffunni á meðan
því listamenn loka ekki augunum.

Eftir á tek ég hana í faðm mér,
þrýsti fast
og ber hana í fangi mér út í Landsbanka
þar sem stimpillinn smellir fyrirgefningarkossi
á vangoldna reikninga.
Yfirbót í formi dráttarvaxta
borin fram með feginleik
og sljó augu gjaldkerans gera sér enga grein
fyrir þýðingu þess
enda sál hans sjálfsagt blundandi
í einhverri skúffunni
og listin víðsfjarri.

Blár miði fyrir gulan.
Og sál mín ber mig í faðmi sér
út í sólríkan rigningardag.
3

Stundum sé ég kunnuglegu andliti bregða fyrir
í Bónus eða Rúmfatalagernum.

Þú hér? segir andlitið
“Hví sé ég í augum þér
kirsuberjavið og nautalundir
þegar hendur þínar grípa spónaplötur og pasta?”

“Af því að listamenn loka ekki augunum”
segi ég
og bæti í körfuna gengisfelldum draumi.


4

Dag nokkurn stendur Veruleikinn á tröppunum
“ég hef saknað þín”
segir hann.

Í flýti treð ég sálinni niður í skúffuna
og skelli,
klemmi hana í ógáti, mer.

Úr fjarlægð berast mér kvein hennar að eyrum
en skeyti því engu.
Býð gestinum kaffi
og hafna honum síðan kurteislega.
Því listamenn loka ekki augunum
og meiddri sál þarf að sinna.


Tuesday, July 06, 2004

Vænting

-

Á vorköldum morgni
ruddi vænting þín glufu í malbikið
og breiddi krónu
mót nýþvegnum hjólkoppi

Vetur

-

Kannski var sumarið andvaka.

Friðsemdin græn
bylti sér veturlangt undir kvíðboga mínum
og blæfrjóir vorlaukar
sáðu væntingum í erfiði mitt.

Ekki skóf yfir spor mín þennan vetur
en hafi mér skrikað fótur
sjást þess merki í langþreyttri moldinni.

Vökuvísa

-

Þér hef ég sungið atkvæði
fremur en ákvæði,
margvísur
umfram fávísur
og niður valkvæðanna lék undir
þá sjaldan að háttvísur komust á efnisskrá.

En viðkvæði mitt
sem áður varnaði þér vöku
hefur í huga þér breyst í lævísur
og varnar þér svefns.

Hlutskipti

-

Þegar rokkarnir voru þagnaðir
spann ég söguþráð á hljóðsnældu
og fléttaði þætti í símalínu.

Þegar rauðir þræðir röknuðu úr vef mínum
sló ég örlög mín á lyklaborð
og tengdi vef veraldarinnar.

Þegar nornir tjölduðu sali mína
nýju klæðum keisarans
birti ég nekt mína á breiðtjaldi.

Af sjálfsdáð hef ég dregið þær línur
sem varða leiðina,
á stundum skrifað undarlegustu hendingar

og hlutskipti mitt veltur á því einu
hvernig hlutnum er skipt.

Hugarró

-

Ekki sakna ég þagnarinnar
sem skriðin úr hugskoti nágrannans
hvískraði ógnarþulur
við óvarinn glugga bernsku minnar.
Næturlangt.
En spurði einskis.

Kvöldum saman
hef ég sofnað við nið tölvunnar
vaknað við gemsa nágrannans
handan veggjar.
Þögnin horfin úr lífi mínu;
nú set ég reglurnar sjálf
og hef spunnið blekkingarvef fyrir gluggann.

Dapurlegt
segir þú
og vel má svo vera.

Margt er líkt með skyldum
og víst er þögnin systir lyginnar.
En vita skaltu
að órofnum svefni
hef ég aldrei kynnst fyrr.

Ljóð handa konum á uppleið

-

Sjaldan hafa þeir bræður Gáski og Háski
vikið frá mér spannarlengd
á hlaupum mínum niður stigann.
Skottast ýmist á eftir
og skella mér á rass
flissandi,
eða ryðjast fram fyrir
og búast til að bregða fyrir mig fæti.

Á uppleiðinni fer minna fyrir þeim,
skjögra mér að baki,
þunglamalega
og nöldra iljum
við gólfdúkinn.

Hvíld er það
mikil ósköp.
Og þó bíð ég þess alla leiðina
að annar þeirra
glefsi geðvonskulega í hæl mér.

Ævintýr hins ósagða

-

Löngum hafa nöfn mín
hrakist fyrir vindum
og hvítur stormurinn felur í sér
fyrirheit um frekari sviptingar.

Án sektar
án sakleysis
hef ég gefið honum eitt þeirra á vald,
hrifist með hvini hans
að endimörkum frumskógarins
þar sem höggormurinn hringar sig
utan um sólina

og barn hefur stigið sín fyrstu skref
út á brúna
sem skilur veröld hugsunar og tungu.