Bláþræðir -dagbók vændiskonu

Þessi bók er tileinkuð Nínu. Þrátt fyrir prýðilega umsögn lesara bókaforlagsins Eddu var útgáfu hafnað á þeirri forsendu að yrkisefnið væri "ekki ljóðrænt".

Saturday, October 09, 2004

Efnisyfirlit

-

Inn fyrir leiktjöldin

Landkynning
Á vinnustofu listamanns
Pósa
Dorg
Eftir lokun
Bergmál úr helli ísdrottningar
Höll meistarans
Þrællinn
Kastali Drottningarinnar
Ljóð handa útgerðarmanni


Bláþræðir fávísinnar

Bakþankar
Línur
Sjálfsköðun
Ljóð handa bjargvætti
Í býtið
Frétt
Engan bilbug


Veruleikinn stendur á tröppunum

Við lúguna
Ljóð handa skúringarkonum
Frídagur
Fall
Val
Listamenn loka ekki augunum


Hugarró

Vænting
Vetur
Vökuvísa
Hlutskipti
Hugarró
Ljóð handa konum á uppleið
Ævintýr hins ósagða

Thursday, October 07, 2004

Landkynning

-

Utan við kaffi Austurstræti
svipta vorvindar hraðir
skjóllitlum flíkum
ljóshærðar stúlku
sem brosir til ferðamanna,
berrössuð
eins og hálendið sjálft
og krefst ekki greiðslu.

Önnur smávaxin, dökk
við dyrnar,
leiðir drukkinn landa
út í nepjuna,
nemur staðar við hraðbankann
með skáeygu brosi.
Á Íslandi gerast allir hlutir hratt.

Á vinnustofu listamanns

-

Horfi á blýantinn gæla við hálslínu
strjúka mýkt yfir kviðinn

viðarkolum hefur þú leikið nekt mína
laðað úr hörundi mínu
liti sem ekki er þó ætlað að lenda á striga.

Og ég sem vildi vera þér Mona Lisa,
þarna sit ég pappírnum,
sposklaus með öllu.

Svarthvít niðurstaða
af litfrjóum leik.

Pósa

-

Fangaðu sál mína,
klámfengna blygðun,
eitt stafrænt augnablik.

Fíkjublaði skreyti ég nekt mína
Brosi til linsunnar,
bak við hárið
veðböndum prýtt.

Dorg

-

Í innflutningsdeildinni
liggja dorggjörn tækifæri á glámbekk.
Gríp þau í gæsavís
og renni út

gullfiska húkkar gæsin mín
á augnkrók.

Eftir lokun

-

Herbergi starfsfólksins verst.
Þefur af kampavínsælu,
svitastokknu næloni
og reykmettuðu sæði.

Borðtusku rennt
framhjá notuðum fimmþúsundkalli
sem gleymdist á borðinu,
hvítt duft loðir við gulan hor á upprúlluðum endanum.

Moppunni rennt
framhjá notuðu nærbuxnainnleggi
sem gleymdist á gólfinu,
hvítt yfirlag, atað gulum vessum.

Að lokum er tuskan undin
og vagninum rennt
framhjá haug af hvítum eldhússpappír,
klístruðum gulum blettum.

Hendur þvegnar og
augunum rennt
framhjá notaðri dansmey
gulri
sem að líkindum hefur gleymst
á hvítum sófanum.

Bergmál úr helli Ísdrottningar

-

Úr staðleysu
hafa nöfn okkar kallast á,
bergmálað í draumum
sem báru hold mitt
til dyflissu þinnar

dyflissu þína
til veruleika míns.

Geislum hefur undarleikinn fléttað íshelli þinn
og varpað ljósi á óþekkt göng að óþekktum kjarna.

Staðleysa mín, svipa þín
en svipur minn
í nafni þínu.

Höll Meistarans

-

Vorverkin hafin.
Einhver hefur klippt runnana í dag.

Geng hrörlegan stigann,
snerti varlega hriktandi handriðið.
Les tákn úr sprungum í veggnum
og gatslitnum gólfdúknum.

Hér, bak við spónlagða hurð sem ískrar á hjörunum,
er Mark Antony til húsa.

Banka varlega,
hrollur við hnakkann;
“mér var sagt að mæta til viðtals herra”.

Hér, í satinklæddri dyngju sinni
skreyttri kertaljósum og gullofnum púðum,
ólar hann ódælar stúlkur niður á flengibekk,
á meðan konan á neðri hæðinni
hirðir afklippta birkisprota úr garðinum.

Þrællinn

-

Þrælslund í augum
en fró í hjarta.
Þvær gólfið í dyngju Gyðjunnar
á hnjánum með stífaða svuntu.
Fær kannski að lakka neglur hennar að launum
eða smeygja háhæla skóm á fíngerða fætur.

Kveður auðmjúklega
með kossi á hönd Gyðjunnar.
Snýr aftur til embættis síns
íklæddur magabelti og netsokkum
undir jakkafötunum.
Reiðubúinn að takast á
við þrældóm hvunndagsins.

Kastali Drottningarinnar

-

Kastali minn stendur á hæðinni.
Ljós í efsta turnglugga
og úlfar varna óboðnum inngöngu.
Gerði þyrnirósa umkringir.
Flýgur hrafn yfir.

Silkiklædd tek ég á móti þér
með veldissprotann reiddan til höggs,
dyngja mín tjölduð flauelsdúk
er þú krýpur mér að fótum.

Meðan þú dvelur hlekkjaður í turni mínum
og hlustar á hringlið í keðjunum
grunar þig síst
að bak við virkisvegginn
blakti veruleikinn
strengdur yfir snúru í formi Hagkaupsbols.


Ljóð handa útgerðarmanni

-

Samstarf, segirðu;
LOL!
Ég þekki kóna
af þínu tagi,
dóna
sem ekkert kunna og vilja nema nota,
pota,
ota sínum tota.

Sé þær gægjast upp úr vösum þínum,
fávísar, fátækar, háðar
en þarf ekki að spyrja.

Þú ert illa skeindur góði minn
því ber vitni
nærbrók þín, á gólfinu.