Bláþræðir -dagbók vændiskonu

Þessi bók er tileinkuð Nínu. Þrátt fyrir prýðilega umsögn lesara bókaforlagsins Eddu var útgáfu hafnað á þeirri forsendu að yrkisefnið væri "ekki ljóðrænt".

Tuesday, September 07, 2004

Bakþankar

-

Bláþráðum sleginn
er örlagavefur minn
þessi árin.

Skarpir hafa skorið
fingur nornanna
þræðirnir þeir.

Línur

-

Var það lífsins lind
sem spratt fram undir vísifingri þínum,
kvíslaðist við uppsprettuna,
greindist í ám og lækjum um lófa þinn allan
og vætti hörund mitt?

Eða var það tákn guðdómsins
þegar þú bentir á mig,

netið
sem þú reyrðir að hálsi mér?

Sjálfsköðun

-

Hver velur slíkt hlutskipti?

Setja sig í lífshættu
til að handleika blóðkaldar hræætur.
Koma heim með slímkennda ólykt
loðandi við húð þína og fatnað
svo börn þín hrökklast frá.

Selja öðrum afnot af skrokk sínum
og eftirláta hluta ágóðans
í skiptum fyrir aðstöðu og vernd,
og fylliríið í kringum þetta, Drottinn minn dýri.

Hver myndi velja sér slíkt hlutskipti?
Var það fjárhagsleg neyð sem rak þig
eða sýður þér í æðum sjómannsblóð?

Ljóð handa bjargvætti

-

Bjargaðu mér!
Bjargaðu mér frá dráttarvöxtum.
Frá samveru við fjölskylduna.
Frá því að heyra ekki framar “heimild synjað”
við afgreiðsluborðið í Bónus.

Bjargaðu einnig súlustúlkunni
(sem áður vann 7 tíma á dag á spænsku hóruhúsi)
frá því að eygja von um svepplaust líf
með því að bera sig fyrir manninn þinn
bak við tjöldin.

Bjargaðu frá geðillskukasti
öllum háskólagengnu konunum
sem sjá eftir tekjum maka sínna
í vasa ómenntaðs útlendings.

Í bítið

-

Þú fléttaðir hár mitt
myndböndum,
smaugst fimlega
úr olíubornum greipum mínum

en áður en lýkur
svipti ég sparlökum frá rekkju þinni
og breiði þau á bekkinn.

Frétt

-

Á litþrungnum blámorgni
blómstra kyrraðarrunnar í Norðurmýrinni
og einsemdin röltir í skjóli þeirra
á fund lausakonu sem vakir enn
með huggun í höndum.

“Velkomin”, segir hún
og brosið nær fram í fingurgóma.
“Nú hætti ég bráðum í bransanum.
Þeir sýndu dömunni stjörnur í gær.”

Engan bilbug

-

Í þessum geira
dregur umfjöllun úr eftirspurn
í bili.

Bugast ekki af bilinu því
þótt flestir séu draumar mínir
fallnir í gjalddaga.

Kasta út interneti og símalínu
og dreg;
þeir fiska sem róa.

Veit sem er
að með tímanum mun umtalið
miðla árangri,
fjöl til að fljóta á,
varpa ljósi á augu hinna umræddu
sem enginn hefur ennþá spurt álits.

Við lúguna

-

Troddu hausnum í þar til gert gat,
helst það þrengsta sem þú finnur
dragðu andann djúpt
og syngdu svo
um allt sem brennur þér í iðrum
og vittu til
að lokum mun rödd þín hljóma.

Há og hvell
mun hún
hljóma.
Kasta hjarta þínu
veggja á milli
í iðrum
ruslageyslunnar.

Ljóð handa skúringakonum

-

Heit var ég
og freyðandi
en hjaðnaði
þegar hann sökk
í ilmmjúkan kúfinn
og drakk í sig eðli mitt.

Eftir á köld.
Flöt.
Gólfið hreint
en sjálf er ég daungrátt skólp
og klúturinn undinn.