1
Ilmur framandi jurta
af hörundi þeirra.
Safinn sprettur fram undan fingurgómum.
Vildi sökkva tönnunum
í freskjumjúkt holdið og sjúga.
En auðvitað snerti ég aðeins yfirborðið
því listamenn loka ekki augunum.
Þó gerist það stöku sinnum
að eftir á finn ég húðfrumur
undir nöglunum.
2
Stundum sveittir búkar,
holdið skvapkennt,
rassalykt.
Sál mín varin, geymd,
sefur rótt í efstu kommóðuskúffunni á meðan
því listamenn loka ekki augunum.
Eftir á tek ég hana í faðm mér,
þrýsti fast
og ber hana í fangi mér út í Landsbanka
þar sem stimpillinn smellir fyrirgefningarkossi
á vangoldna reikninga.
Yfirbót í formi dráttarvaxta
borin fram með feginleik
og sljó augu gjaldkerans gera sér enga grein
fyrir þýðingu þess
enda sál hans sjálfsagt blundandi
í einhverri skúffunni
og listin víðsfjarri.
Blár miði fyrir gulan.
Og sál mín ber mig í faðmi sér
út í sólríkan rigningardag.
3
Stundum sé ég kunnuglegu andliti bregða fyrir
í Bónus eða Rúmfatalagernum.
Þú hér? segir andlitið
“Hví sé ég í augum þér
kirsuberjavið og nautalundir
þegar hendur þínar grípa spónaplötur og pasta?”
“Af því að listamenn loka ekki augunum”
segi ég
og bæti í körfuna gengisfelldum draumi.
4
Dag nokkurn stendur Veruleikinn á tröppunum
“ég hef saknað þín”
segir hann.
Í flýti treð ég sálinni niður í skúffuna
og skelli,
klemmi hana í ógáti, mer.
Úr fjarlægð berast mér kvein hennar að eyrum
en skeyti því engu.
Býð gestinum kaffi
og hafna honum síðan kurteislega.
Því listamenn loka ekki augunum
og meiddri sál þarf að sinna.